Ostakaka með hvítu súkkulaði og karamellu

Þetta var í fyrsta skipti sem ég geri sjálf ostaköku sem þarf að fara inn í ofn. Það verður seint sagt að ostakökugerð sé fljótleg, en ég get sagt að það var hverrar mínútu virði, þessi kaka er gjörsamlega guðdómleg! Það skemmtilega við þessa hvítu súkkulaði ostaköku er að það er hægt að leika sér svoldið með toppana, ég valdi að setja karamellu krem sem kom mjög vel út. Næst mun ég prófa einhverskonar ber, ég er viss um að það sé líka rosalega gott. 
Innihald:
Botn:
400 g hafrakex, ég notaði Digestive sem fæst í Bónus
200 g smjör

Ostakaka:
600 g Gott í matinn rjómaostur til matargerðar
1 ¼ bolli sykur
½ bolli rjómi
200 g hvítt súkkulaði
4 egg
1 msk. vanilludropar
½ msk. salt

Karamella:
½ bolli sykur
2 msk. vatn
2 msk. rjómi
50 g smjör

Smelluform, álpappír, sjóðandi vatn, djúp ofnskúffa/fat

Aðferð:
Byrjið á botninum.
-Kexkökurnar eru hakkaðar í matreiðsluvél eða blandara.
-Smjörið brætt í potti, hellt yfir og blöndunni er þjappað saman í form með skeið, aðeins upp á kantana.
-Bakað í ofni við 200 gráður í 10 mínútur og síðan látið kólna.
Þá er ofninn settur á 165 gráður því kakan fer aftur inn.
Ostaköku fylling:
-Rjóminn og hvíta súkkulaðið brætt saman við mjög vægan hita.
-Rjómaosturinn er settur í hrærivél þar til hann er orðinn mjúkur og laus við kekki.
-Sykurinn settur saman við og þeytt á miðlungs hraða.
-Næst fer hvíta súkkulaðiblandan saman við.
-Að lokum fer eitt egg í einu, saltið og vanilludroparnir.
-Blöndunni er hellt í formið.
-Formið er klætt í álpappír, ég setti alveg 4 umferðir svo það leki pottþétt ekki vatn inn á formið.
-Formið er sett í annað stærra form eða djúpa ofnskúffu, sjóðandi vatni hellt í stærra formið og inn í ofn. 
-Kakan er bökuð inn í ofni við 165 gráður í 60 mínútur, þá er hitinn lækkaður niður í 130 gráður og bakað í 30 mínútur í viðbót. Þá er gott að láta kökuna kólna inni í ofni svo hún klofni ekki, með örlitla rifu á ofninum.
-Þegar kakan er orðin volg er hún kæld inni í ísskáp í nokkra tíma áður en hún er borin fram. 
 
Karamellusósa:
-Sykur og vatn er sett í pott og látið sjóða í 5-7 mínútur eða þar til blandan verður brún á litinn.
-Potturinn er tekinn af hellunni og smjörinu og rjómanum er bætt út í og hrært þar til blandan verður mjúk. 
Ég setti karamelluna á og með inn í ísskáp, en það er örugglega líka gott að bera sósuna fram heita með kökunni.
Komin úr ofninum, ljós brún á toppnum og fullkomlega bökuð.
Mjúk og æðisleg... Njótið vel :)

Fleiri uppskriftir inná www.gottimatinn.is og www.facebook.com/gigjas

Ummæli