Þessi pizza er í allra mesta uppáhaldi hjá mér og allir sem hafa smakkað þessa hjá okkur gera hana aftur seinna. Algjör veisla fyrir bragðlaukana.
Innihaldið fer auðvitað eftir því hversu margar pizzur þið ætlið að gera þannig ég gef ykkur uppskrift af eins og fyrir 1 pizzu.
Innihald:
1 pizzadeig / ég nota súrdeigspizzadeig
1 msk hvítlauksolía
1/2 bakki sveppir
2 msk smjör
Feykir ostur / einn ostur dugar á um 3 pizzur
truffluolía
hvítlaukssalt
gróft sjávarsalt
Aðferð:
Sveppirnir eru skornir og steiktir á pönnu með smjöri og hvítlaukssalti. Þegar þeir eru tilbúnir er smá truffluolíu bætt út á pönnuna.
Pizzadeigið er flett út og í botninn fer hvítlauksolía, næst rifinn Feykir ostur eftir smekk og sveppir.
Eldunartími pizzunnar fer eftir hvernig þið eldið hana en hún er auðvitað best grilluð eða í pizzaofni. Ef sú aðferð er notuð þá eru þetta um 2 mínútur og fylgst vel með þar til pizzan er komin með fínan lit.
Ef pizzan er sett í ofn þá er best að hafa hitann á 220 gráður blástur og baka pizzuna í 10-12 mínútur eða þar til kanntarnir hafa fengið góðan lit. Gott ráð til botninn verði betri er að setja pizzuna inn á heitri ofnplötu.
Þegar pizzan er tilbúin þá er sjávarsalti og truffluolíu bætt ofan á um leið og hún kemur úr ofninum.
Hvítlauksbrauð með Feyki osti
Afganginn af Feyki ostinum notaði ég til að gera hvítlauksbrauð
Aðferð:
Deigið er flett út og hvítlauksolíu og feyki osti er dreyft yfir helminginn af deiginu og deginu svo lokað saman eins og hálfmána og kantarnir pressaðir niður.
Hvítlauksbrauðið er hitað að sömu aðferð og pizzan.
Um leið og það kemur út er hvítlauksolíu smurt á ásamt sjávarsalti og skorið í ræmur.
Gott að dýfa þeim í pizzasósu
Njótið vel, Gigja S
Ummæli
Skrifa ummæli