Djúsí ostalasanja með kjúklingi og beikoni

Ef það er ekki sá tími ársins núna sem er gott að vera inni í kuldanum og njóta þess að borða góðan mat. Ég gerði þetta óhefðbundna ostalasanja í kvöld og hjálpi mér hvað það er æðislega gott. OSTUR, hver elskar ekki ost? Þessi ostasamsetning er alveg himnesk og ég get lofað því að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum með þennan rétt ef ykkur finnst ostur góður. Rétturinn sló í gegn á mínu heimili og verður klárlega gerður aftur. 
Uppskrift fyrir 4

Innihald:
250 g lasanja plötur
100-150 beikon kurl
2 stórar kjúklingabringur
1 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
1 dós sýrður rjómi
300 g rjómaostur frá Gott í matinn
150 g smurostur með camembert
Ferskur parmesan ostur
Salt og pipar
Italian krydd

Aðferð:
Ofninn er hitaður í 200 gráður
Kjúklingurinn er eldaður, ég setti hann á mínútugrillið en það er hægt að elda hann eins og ykkur finnst best.
Lasanja plöturnar lagði ég í sjóðandi vatn í nokkrar mínútur til að lina þær
Beikonið, rauðlaukurinn og hvítlaukurinn fara saman á pönnuna í steikingu í 3-5 mínútur, bara passa að beikonið brenni ekki.
Ostasósan:
Sýrða rjómanum, rjómaostinum, og smurostinum er blandað saman í skál með kryddunum, alls ekki spara Italian kryddið, það gefur einstaklega gott bragð.
Þegar þetta allt er tilbúið þá er að setja réttinn í eldfast mót. Mín aðferð var að rúlla plötunum upp, mér fannst sú útfærsla skemmtileg en það er auðvitað hægt að raða plötunum og fyllingunni í form eins og hinu hefðbundna lasanja. 
Plöturnar lagðar niður nokkar saman. Sósan, kjúklingurinn og beikonblandan sett á og vafið upp.
Vefjurnar eru svo lagðar í mótið og ég setti restina af sósunni ofan á, nú er þetta tilbúið til að fara inn í ofn í 10-12 mínútur.
Þegar rétturinn kemur úr ofninum er hann toppaður með ferskum parmesan, gott að hafa nóg af parmesan osti. 
Njótið vel!

Ummæli