Lakkrís og súkkulaðibitakökur





Gerði þessar æðislegu lakkrís og súkkulaðibitakökur í dag og þær eru unaður í hverjum bita, ég er hrædd um að ég þurfi að láta fela boxið fyrir mér svo ég klári þær ekki allar ein. Kökurnar eru ekta mjúkar amerískar súkkulaðikökur með smá lakkrís tvisti. Eina sem eg var hrædd um var að lakkrísinn yrði harður í kökunum en hann varð það alls ekki. 

Uppskriftin er einföld, tekur aðeins 30 mínútur og gerir hún um 60-65 kökur. 

Innihald:

220 gr smjör
1 bolli sykur
1 bolli púðursykur
2 egg
2 tsk vanilludropar
1 tsk matarsódi
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
3 bollar hveiti
150 gr lakkrískurl með súkkulaði
100 gr súkkulaði í kökurnar
50 gr súkkulaði til skrauts (val)

Aðferð:

Smjörið er sett í hrærivélina og hrært þar til það verður létt og ljóst, þá er púðursykrinum og sykrinum bætt við og hrært.
Næst fara egg og vanilludropar út í og hrært vel. 
Þurrefnunum er blandað saman í sér skál og þeim svo bætt við í hrærivélina og súkkulaðið og lakkrísinn fer saman við í endann.



Litlar kúlur eru mótaða á bökunarpappír, eða um ein teskeið af deigi og þær eru bakaðar í ofninum á 180 gráðum blæstri í 8-10 min.



Mér fannst skemmtilegt að poppa aðeins upp á kökurnar og skreyta þær með súkkulaði. Þá er súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og þær skreyttar eins og ykkur sýnist.

Njótið vel kæru lesendur og gleðilega hátið.

Fleiri uppskriftir frá mér er að finna á www.facabook.com/gigjas og www.gigjas.com 




Ummæli